Færsluflokkur: Dægurmál

Biskup víki.

Þau eru orðin nokkuð mörg málin sem Karl biskup hefur ekki náð að leiða farsællega til lykta. Prestar eru breiskar manneskjur rétt eins og aðrir og til að hafa á þeim stjórn dugar engin helgislepja. Það þarf nefnilega sterkan vilja, útsjónarsemi og diplómatíska hæfileika til að stjórna stórum fyrirtækjum og kirkjan er ekkert annað. Karl biskup verður að fara að horfast í augu við það að hann hefur einfaldlega ekki þá stjórnendahæfileika sem þarf til starfsins. Biskupseiginleikar ganga nefnilega ekki í erfðir og tímarnir hafa breyst frá því Herra Sigurbjörn, faðir Karls, gegndi farsællega biskupsembættinu til fjölda ára. Það væri því heiðarlegast og virðingarverðast fyrir Karl að víkja úr embættinu þannig að aðrir geti spreitt sig á að byggja aftur upp traust manna á kirkjunni. Það verður ekki gert á meðan Karl Sigurbjörnsson er í embætti biskups.
mbl.is Biskup eigi að víkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krabbameinsútgjöld stjórnlaus?

Öll útgjöld til hátæknilækninga eru stjórnlaus.
Því miður hefur heilbrigðiskerfið orðið fórnarlamb græðgisvæðingarinnar - ekki síst fyrir tilstuðlan lækna og lyfjafyrirtækja. Það eru allt of margir sem hafa af þvi atvinnu og/eða gróða að gera tilraunir með lækningar við öllu sem hrjáir mannkyn.
Lyfjafyrirtækin eru sífellt að finna upp ný lyf sem oft er jafnvel ekki útséð um áhrifin af þegar farið er að nota þau í "lækningaskini". Lækningatækjafyrirtækin eru sífellt að finna upp og þróa tæki og tól sem eiga að auðvelda sjúkdómsgreiningar og "lækningar" en geta jafnvel stuðlað að verri heilsufarslegri útkomu þeirra sem þau nota. Allt er þetta gert í skjóli mannúðarsjónarmiða þegar raunin er sú að gróðasjónarmiðin vega þyngst.
Lyfjafyrirtækin agitera fyrir sínum vörum - halda íburðarmiklar lyfjakynningar og ráðstefnur og bjóða læknum ýmis hlunnindi fyrir að nota vörur þeirra. Það kostar gríðarmikla grunnþekkingu og hlutlausa, gagnrýna hugsun (að nú ekki sé talað um tíma) að sortera allt sem í boði er og uppástaðið að sé til hagsbóta fyrir sjúklinga. Og það þarf sterk bein til að standast ágang lyfjafyrirtækjanna. Flestir læknar eru heiðarlegir og gera sitt besta til að lina þrautir og lækna sjúkdóma. Og þeir verðskulda góð laun fyrir sína vinnu. En læknar eru bara mannlegir og það er auðvelt að láta glepjast af gylliboðum og von um skjótfenginn gróða og vinsældir.
Enginn vill vera veikur og fæstir vilja deyja. Stundum er það þó óumflýjanlegt og það er ljótt að gefa fólki falsvonir um betra og lengra líf þegar ekki er um það að ræða. Það verða alltaf til sjúkdómar sem draga fólk til dauða. Endurnýjun á sér stað í öllu lífríkinu og þannig viljum við hafa það - þótt við viljum ekki missa þá sem okkur þykir vænt um eða deyja frá þeim. Auðvitað er gott og eðlilegt að nota þekkingu til að koma í veg fyrir og meðhöndla sjúkdóma sem rýra lífsgæði eða stefna lífi í hættu. Það verður bara að vera einhver skynsemi í því hvernig og á hverja, lyfjum og tækni er beitt.

mbl.is Krabbameinsútgjöld stjórnlaus?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meðvirkur maki.......

Held að Margrét hafi snúið þessu á hvolf. Ofbeldismaðurinn er ekki stjórnarandstaðan heldur Evrópusambandið. Allt gert til að halda því góðu og sjálfstæðinu fórnað fyrir hagsmuni þess.

fundur hjá evrópusambandinu 

Fundur hjá Evrópusambandinu.

 


mbl.is Samfylkingin eins og „meðvirkur maki“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varla myndi kona setja feitabollumynd af sér á þennan samskiptavef .......

Hvern andsk.... ertu að meina Marta? Hvað er feitabollumynd? Og af hverju myndi það vera á einhvern hátt verra að setja feitabollumynd á netið? Gættu þess hvað þú segir - aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Fyrir nú utan - hvað í veröldinni kemur okkur við hvað Demi Moore gerir þegar henni leiðist? Mér finnst þessi frægrafólksfréttaflutningur bæði leiðigjarn og hallærislegur!!


mbl.is Þetta er myndin sem allir eru að tala um
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það sem maður kemur sér í.

Í vor var ég að lesa skemmtilega grein á netinu og sá þá jafnframt að höfundurinn var að hætta að skrifa fyrir þann miðil og benti þeim sem hefðu áhuga á skrifum hennar að gerast vinir á fésbókinni. Og auðvitað þurfti ég að demba mér í það - maður á jú aldrei nóg af vinum Tounge Ekki löngu síðar sendi höfundurinn mér skilaboð þar sem hún vildi vita allt sem vitað væri um tölulegar staðreyndir í íslenska heilbrigðiskerfinu þegar kemur að meðgöngu, fæðingu og ungbörnum. Þar sem ég er sjálf ákaflega áhugasöm um þessi málefni var ég vitaskuld með þetta allt á reiðum höndum Wink Þar með hóf boltinn að rúlla og áður en ég vissi af var þessi pistlahöfundur/rithöfundur búin að bóka flug til Íslands til að hitta mig og helling af öðrum ljósmæðrum, læknum og meira að segja sjálfan landlækninn W00t Það kom nefnilega í ljós að hún er að skrifa bók um barneignir og ungabörn í BNA og hvað markaðsöflin þar spila stórt hlutverk í meðferð kvenna og barna í kring um fæðingu barnanna. Í Bandaríkjunum er ungbarnadauði nefnilega á svipuðu róli og í þróunarlöndunum og mæðradauði í tengslum við meðgöngu og fæðingu talsvert algengur Frown Tölulegar upplýsingar frá okkur hér á Íslandi vöktu því með henni forvitni um það hvernig stendur á því að svo lítið er um burðarmáls-, ungbarna- og mæðradauða á Íslandi á meðan Bandaríkjamenn glíma við svo stórfelld vandamál á því sviði.

Í gær kom svo Jennifer að heimsækja mig á Selfoss. Notaleg kona um fertugt sem spurði áleitinna spurninga um ljósmóðurstarfið og íslenska heilbrigðiskerfið. Og við veltum því fyrir okkur fram og til baka hvað það er sem gerir íslenska mæðra- og ungbarnavernd svona mikið betri en hún er í BNA. Ég var helst á því að, fyrir utan góða menntun ljósmæðra, lækna og hjúkrunarfræðinga, væri það smæð þjóðarinnar og nándin við fólkið sem skipti þar höfuðmáli. Ég veit það þó ekki. Sjálfsagt eru það margir þættir, bæði félagslegir og tengdir mismun á þjóðfélagssamsetningu og almannatryggingakerfa þessara tveggja ríkja.

En eitt stendur þó upp úr eftir þennan dag með Jennifer Margulis: Við Íslendingar eigum ennþá gríðarlega gott heilbrigðiskerfi en við þurfum að hafa okkur öll við til að standa vörð um það. Markaðsöflun hafa þegar hafið innreið sína í íslenska heilbrigðiskerfið og séu þau ekki stöðvuð eiga þau eftir að éta það eins og maðkur og við endum eins og Bandaríkjamenn; með heilbrigðiskerfi sem þjónar ekki fólkinu í landinu heldur fólkinu sem sem rekur það og vinnur hjá því.

 


Andskotans smjaður og undirlægjuháttur.

Hvað þykist forsetinn eiginlega vera að gera? Styðja erlent eignarhald á landinu okkar. Mér finnst hann ekki hafa leyfi til þess. Föðurlandssvik væri næst lagi að kalla það þegar maður sem á að gæta skilyrðislausra hagsmuna lands og þjóða lætur svona smjaður og undirlægjuhátt í ljósi við erlenda fjárjöfra. Eða eins og segir í ljóðinu Fylgd eftir Guðmund Böðvarsson:

Ef að illar vættir
inn um myrkragættir
bjóða svikasættir
svo sem löngum ber
við í heimi hér,
þá er ei þörf að velja:
þú mátt aldrei selja
það úr hendi þér.

Okkur Íslendingum má vera ljóst að landið okkar er einstök náttúruperla og við megum teljast gæfusöm að geta sagt að við eigum land. Látum okkur því aldrei til hugar koma að selja það undan okkur - jafnvel þótt miklir peningar séu í húfi. Það væri eins og að selja heimilið sitt til að komast í utanlandsreisu. Heimskulegra en tárum taki.

 


mbl.is Fagnar kínverskum fjárfestingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjóðum Huang hana..

.. í stað Grímsstaða. Perlan er hús á leigulóð en Grímsstaðir partur af landinu okkar.

Og talandi um það - hvað þykist forsetinn eiginlega vera að gera? Styðja erlent eignarhald á landinu okkar. Mér finnst hann ekki hafa leyfi til þess. Föðurlandssvik væri næst lagi að kalla það þegar maður sem á að gæta skilyrðislausra hagsmuna lands og þjóða lætur svona smjaður og undirlægjuhátt í ljósi við erlenda fjárjöfra. Eða eins og segir í ljóðinu Fylgd eftir Guðmund Böðvarsson:

Ef að illar vættir
inn um myrkragættir
bjóða svikasættir
svo sem löngum ber
við í heimi hér,
þá er ei þörf að velja:
þú mátt aldrei selja
það úr hendi þér.

Okkur Íslendingum má vera ljóst að landið okkar er einstök náttúruperla og við megum teljast gæfusöm að geta sagt að við eigum land. Látum okkur því aldrei til hugar koma að selja það undan okkur - jafnvel þótt miklir peningar séu í húfi. Það væri eins og að selja heimilið sitt til að komast í utanlandsreisu. Heimskulegra en tárum taki.

 


mbl.is Perlan auglýst til sölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

EKKI - ALLS EKKI

leyfa þessa fjárfestingu. Lofum ekki útlenskum útrásarvíkingum að leggja undir sig Ísland, landið okkar. Ef einn fær kemur skriðan á eftir. Þetta væri fordæmisgefandi.

Reyndar er það svo að fyrir nokkrum árum fékk evrópskur fjárfestir leyfi til að kaupa jörð í Mýrdalnum. Þar átti að rísa ferðaþjónusta. Ekkert gerðist og jörðin og hlunnindi hennar, m.a. veiði, eru öllum lokuð og vannýtt og húsakostur, girðingar og umhverfi allt komið í órækt og niðurníðslu.

Við skulum ekki selja landið okkar í hendur útlendingum. Jafn vel þótt okkur vanti peninga.


mbl.is Hefur sótt um undanþágu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mig vantar líka peninga.

Ég myndi samt ekki láta hafa mig út í dópsölu og vændi Sick Það er nefnilega ekki sama hvaðan peningarnir koma. Eða eins og Hérastubbur bakari sagði um piparkökurnar "þetta eru góðar og nýbakaðar kökur - það er bara ekki sama hver borðar þærWink

 


mbl.is „Ísland þarf peningana“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mitt drasl verður þitt vandamál.

Alltaf leiðinlegt þegar fólk fer svona með landið okkar. Og hvers er þá að taka saman draslið? Á samfélagið að gera það fyrir umhverfissóðana. Svona umgengni sýnir vanvirðingu fyrir samborgurunum og þeim úrræðum sem verið er að bjóða upp á.

Yfirleitt sýnist mér fólk nú samt ganga ágætlega um og nýta sorp- og endurvinnslustöðvarnar vel. En um leið og einn er búinn að henda drasli á svæðið koma aðrir og halda að það sé líka í lagi fyrir þá. Upp hleðst gamaldags öskuhaugur með þeim sóðaskap sem þeim fylgja; vondri lykt, fjúkandi rusli og mengun í jarðvegi, auk þess að stinga í augun. Kannski felst vandamálið að hluta til í gjaldtöku endurvinnslustöðvanna. Ónothæfir húsmunir og annað sem fólk vill ekki lengur hafa hjá sér þarf að enda einhversstaðar og ef viðkomandi hefur ekki efni á að farga því á heiðarlegan hátt endar það gjarnan svona. Mér hefur reyndar alltaf fundist að endurvinnslustöðvarnar ættu að taka við draslinu endurgjaldslaust því af sumu af þessu drasli skapast tekjur og að auki þarf að auðvelda fólki að losna við sitt drasl á heiðarlegan hátt. Einnig þætti mér eðlilegt að sorphirðan tæki flokkað sorp eins og glerílát og pappír með öðru heimilissorpi. Og svo mættu vera gámar í hverfunum sem fólk gæti sett í útnýtta húsmuni og þess háttar.

En þótt sorpþjónustan sé kannski ekki eins góð og hún gæti verið afsakar það þó ekki að fólk hendi ruslinu sínu á víðavangi.

 


mbl.is Yfirgengilegur sóðaskapur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband