8.11.2011 | 19:14
Haustskjálftahrina?
Fyrir u.þ.b. 10 árum var mikið um skjálfta í Mýrdalsjökli og í kjölfarið var viðbúnaðarstig hækkað og hlið sett á báða enda Mýrdalssands. Á þeim tíma átti ég oft leið um sandinn og fylgdist því grannt með fréttum af skjálftum og mögulega yfirvofandi eldgosi í Kötlu og Kötluhlaupi meðfram því. En eftir því sem frá leið hætti fólk að velta sér svona mikið upp úr þessu og áður en varði voru hliðin tekin niður og flestir keyrðu Mýrdalssandinn alls hugsunarlausir um Kötlu gömlu og vána sem hún ber í sér. En þó sló hjartað ögn örar nokkra daga á ári þegar fregnaðist af skjálftum í jöklinum og fólk flýtti sér eilítið meira yfir sandinn. Þar sem ég átti svo oft leið um sandinn hlustaði ég grannt á alla virtu vísindamennina sem útdeildu visku sinni um þetta merka fyrirbæri. Og eitt var það sem ég heyrði og vakti athygli mína; skjálftavirkni Mýrdalsjökulsfjallanna er mest á haustin þegar ísinn er þynnstur á jöklinum.
Í skýrslu um Mýrdalsjökul sem Mannvit vann fyrir Kötluvikur ehf v/mats á umhverfisáhrifum Vikurnáms á Mýrdalssandi í Janúar 2002 segir: ....." Skjálftavirknin undir Goðabungu er háð árstíðum. Skjálftar eru margfalt algengari þar á haustin en fyrri part árs. Þetta hefur verið túlkað þannig að á haustin er jökulfargið minnst og grunnvatnsþrýstingur í jarðskorpunni hæstur. Báðir þessir þættir lækka núningsviðnám á misgengisflötum í skorpunni og geta þannig stuðlað að aukinni skjálftavirkni (2) ." Og "Kvikuhólfin tvö undir Mýrdalsjökli ásamt megineldstöðinni í Eyjafjallajökli liggja á austur-vestur línu. Þessari línu fylgja einnig gossprungur og misgengi á Fimmvörðuhálsi og Seljalandsheiði. Einhver tengsl virðast vera á milli eldstöðvanna tveggja því bæði eldgosin í Eyjafjallajökli á sögulegum tíma, urðu á svipuðum tíma og Kötlugosin 1612 og 1823. Það er algengt að skjálftavirkni í annarri eldstöðinni leiði til þess að fáeinir kippir verði í hinni eldstöðinni (3) .2"
Hvernig var þetta áður en settir voru skjálfamælar á Mýrdalsjökulinn og Kötlusvæðið? Voru ekki skjálftar þá? Það segir í fréttinni að venjulega finnist einungis stærstu skjálftar í byggð. Hafa Mýrdælingar ekki orðið varir við skjálfta á hverju ári um þetta leiti? Er eitthvað meiri hætta á Kötlugosi núna en um þetta leiti í fyrra? Má ekki reikna með að um sambland af hausthristingi og Eyjafjallajökulsgoseftirköstum sé að ræða? Jarðeðlisfræðingarnir segja m.a.s. berum orðum að ekki sé gosórói í kortunum. Ef svo er, eigum við þá ekki bara að anda rólega og hætta þessari æsifréttamennsku?
Bendi ykkur svo á að lesa þessa stórmerkilegu skýrslu Mannvits:
http://mannvit.is/media/files/vikrunam_a_myrdalssandi_v2.pdfHarður jarðskjálfti í Kötlu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Í bæði skiptin á sögulegum sem Eyjafjallajökull hefur gosið, þá hefur Katla gosið stuttu seinna, um 2 árum síðar, ef ég man rétt. Greinilega tengsl eins og þú segir. Eyjafjallajökulsgos virðist "triggera" Kötlugos.
Katla er líka komin mjög vel á tíma. Venjulega 60-80 ár á milli gosa. Gaus hún ekki síðast 1918? Það eru þá komin 93 ár.
Og það er haust og virkni meiri vegna minna magns af ís.
Ég myndi a.m.k. ekki tjalda úti á söndunum á næstu vikum.
palli (IP-tala skráð) 8.11.2011 kl. 22:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.