Jarðarberjagleði

strawberryplant 

Í fyrra hjálpaði tengdasonur minn mér að útbúa fjögur matjurtabeð utan við eldhúsgluggann minn. Ég keypti forræktað salat, grænkál, spergilkál og blómkál og setti niður kartöflur og sáði gulrótum. Það var með ólíkindum hvað þetta óx allt saman og við höfðum ekki undan að borða herlegheitin þegar leið á sumarið. Og úr því ég var komin með svona flott beð þá fannst mér ég auðvitað verða að rækta jarðarber. Mér þótti samt helvíti blóðugt að borga hátt í 600 krónur fyrir eina litla jarðarberjaplöntu en lét mig hafa það og keypti 10 plöntur. Ekki fékk ég mikla uppskeru af þessum tíu plöntum því púðrið fór mest allt í blaðvöxt. Sniglarnir átu helminginn af þessum örfáu berjum  sem náðu að þroskast og fjórðungur myglaði undir þessum stóru blöðum. Ætli við höfum ekki fengið svona eitt ber á mann allt sumarið. En þegar haustaði tóku undur og stórmerki að gerast í jarðarberjabeðinu. Plönturnar tóku að fjölga sér á undraverðum hraða. Þær skutu m.a.s. rótum út fyrir kassann. Í dag var hlýtt og yndislegt veður og ég í fríi svo ég ákvað að undirbúa beðin fyrir sumarið, þar á meðal jarðarberjakassann. Ég tók upp allar plönturnar og endurplantaði þeim ofan í trjákurl. Og nú voru jarðarberjaplönturnar ekki tíu heldur 26. Sextán nýjar plöntur höfðu skotið rótum frá í fyrravor - 150% fjölgun.

Kannski ég fái þá jafnvel tvö jarðarber þetta sumarið ef ég er heppin Tounge


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Í fyrsta lagi þarftu að fjarlægja þessar nýju plöntur af móðurplöntunni Dagný mín, til að hún noti ekki allan kraftinn í að búa til nýjar plöntur heldur í að búa til ber, í öðru lagi er gott að setja plast yfir beðið og klippa göt fyrir plönturnar, svo sniglarnir komist ekki í þær í þriðja lagi hefurðu greinilega gefið vitlausan áburð, ef plantan hefur notað kraftinn í blöðin í staðin fyrir berin.  Köfnunarefnisáburð skaltu varast, en gefa frekar áburð sem gefur meira í rætur og ávexti eins og til dæmis þaraáburð sem heitir Glæðir.

 gangi þér svo vel með ræktunina. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.5.2011 kl. 22:40

2 Smámynd: Dagný

Takk fyrir ráðleggingarnar Ásthildur - ég klippti einmitt nýju plönturnar af og dreifði þeim um beðið. Þegar ég gerði garðinn minn í fyrra notaði ég 1/2 mold, 1/4 sand og 1/4 hrossatað. Líklega hefur það verið heldur kröftugt því allur blaðvöxtur varð gríðarlegur. Það var gott fyrir kálið en bæði jarðarberja- og kartöfluuppskeran varð heldur rýr. Ætla að sleppa allri áburðargjöf þetta árið og bæta frekar aðeins við sandi eða mold. Svo nota ég trjákurlið til að halda berjunum frá moldinni svo þau mygli síður eins og í fyrra, en ætti kannski að prófa frekar plastið. Þetta er allt í þróun hjá mér

Dagný, 3.5.2011 kl. 22:59

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Jamm hrossatað er heilmikið köfnunarefni.  Það er betra að nota græðir 1a eða bara blákorn.  Hrossataðið á að setja undir moldina til að fá hitan af því en ekki á plönturnar sjálfar.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.5.2011 kl. 23:21

4 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Fróðlegt námskeið fyrir mig sem á nokkrar gamlar íslenskar jarðaberjaplöntur í garðinum mínum. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 6.5.2011 kl. 01:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband