10.6.2011 | 10:52
Á meðan hundarnir voru að drepa féð...
... var dýraeftirlitsmaðurinn að dunda sér við að veiða merkta heimilisketti inni í íbúðarhverfunum á Selfossi.
Á Selfossi eru margir kettir. Kettir eru vinalegar skepnur sem láta fólk yfirleitt óáreitt. Kettir eru hreinlegir og sjaldgæft að maður rekist á kattaskit á göngustígum - öfugt við það sem segja má um hundaskítinn. Af einhverjum ástæðum er það þó svo að yfirvöld í Árborg vinna að því öllum árum að útrýma köttum úr sveitarfélaginu. Reglulega egnir dýraeftirlitsmaðurinn gildrur fyrir kettina inni í íbúðarhverfum Selfossbæjar. Yfirleitt er gildrunum komið fyrir í görðum við hús og í hana veiðast heimiliskettir nágrannanna. Hvort sem kettir eru merktir eða ekki eru þeir geymdir í búri í óupphitaðri skemmu hjá áhaldahúsinu þar til eigendur vitja þeirra. Dýraeftirlitsmanni dettur ekki í hug að líta á merkispjald kattarins eða skoða örmerki og hafa samband við eigendur að fyrra bragði. Hann tekur þó mynd af blessaðri skepnunni og setur á vef sveitarfélagsins en oft hafa þá liðið 2-3 dagar frá því kötturinn var veiddur. Dýrunum er ekkert sinnt þessa daga sem líða frá því þeir veiðast og þar til þeir annað hvort komast heim eða er lógað.
Þessi skelfingu lostni köttur veiddist 6. júní á Selfossi.
Sé kattarins ekki vitjað innan viku er honum lógað. Til að leysa út köttinn þarf eigandi hans að borga 12 þúsund krónur í handsömunargjald ásamt áföllnum kostnaði sem ekki er til nein gjaldskrá fyrir - ? hvernig sá kostnaður er metinn.
Já það eru greinilega allar klær úti - dýraeftirlitsmaðurinn gjarnan að veiða ketti undir helgarnar þannig að sem mest fáist fyrir að leysa þá út. Og allt eru þetta saklausir heimiliskettir borgaranna á Selfossi.
Reyndar er það nú svo að lausaganga katta er óheimil í sveitarfélaginu Árborg. Fyrir vikið má eiginlega segja að kattahald sé bannað þar því eigi fólk kött þá gengur hann laus. Kettir eru nú bara þannig. Og frekar vil ég mæta 10 lausum köttum á göngu minni um bæinn en einum hundi - þótt hann væri í bandi. Kettir víkja úr vegi fyrir fólki nema það gefi sig að þeim - hundar snuðra af fólki og flaðra upp um það og oft því meira sem það reynir að forðast þá. Þess vegna er ekki hægt að setja sömu reglur um ketti og um hunda - þessi dýr eru að eðlisfari allt of ólík til þess.
Nánar um kattahald í Árborg og hér.
Hundar drápu fé á Eyrarbakka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Jújú, rétt. En kattaeigendur eru alltof sinnulausir (margir hverjir, ekki ég og ekki þú hm, ) með kettina sína. Þeir eru til dæmis alltof sjaldan geltir (þ.e. kettirnir, ekki eigendurnir), fólk sinnir köttum ekki nógu vel svo þeir leggjast út (ég hafði á altaninu hjá mér einn svartan aukakött lengi vel í vetur). Ef köttum líkar ekki við sinninguna sem þeir fá heima, þá fara þeir annað, þannig er það bara. Svo þetta stendur líka nokkuð upp á kattaeigendur, mig og þig og alla hina. En: ef lausaganga katta verður bönnuð alveg, þá flyt ég úr þessu sveitarfélagi og þar með verður Árborg af mínu útsvari. Þannig er það bara.
Eygló Aradóttir (IP-tala skráð) 10.6.2011 kl. 11:06
Lausaganga katta ER bönnuð á Selfossi. Það stendur í 5. grein samþykktar um kattahald í sveitarfélaginu Árborg: "Kettir skulu ekki vera lausir úti við í þéttbýli og ber eigendum og/eða forráðamönnum að gæta þess að kötturinn valdi ekki tjóni, hættu, óþægindum, óþrifum eða raski ró manna" Það er auðvitað rétt hjá þér Eygló að margir hugsa ekki nógu vel um kettina sína en það réttlætir ekki að dýraeftirlitsmaður veiði hvaða kött sem er. Þessi vinnubrögð eru sveitarfélaginu til skammar.
Dagný, 10.6.2011 kl. 13:26
Sem betur fer hef ég ekki lent í vandræðum með kettina mína 3 hérna á Seltjarnarnesinu...
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 11.6.2011 kl. 02:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.