6.2.2011 | 21:30
Eru konur klikkaðar?
Angar klámvæðingarinnar halda áfram að misþyrma konum og meybarnatískan tekur sífellt á sig ljótari myndir. Nú eru skapabarmaminnkanir í tísku. Og budda lýtalæknanna fitnar fyrir hverja konubuddu sem rýrnar. Veit fólk ekki að hlutverk skapabarmanna er ekki fagurfræðilegs eðlis heldur hafa þeir þann tilgang að auðvelda fæðingu og hlífa spönginni og endaþarminum við rifum í fæðingu. Fyrir utan að þeir halda slímhúðum kynfæranna rökum og stuðla þannig að eðlilegri leggangaflóru. Hvenær ætla konur að hætta að misþyrma sjálfum sér í nafni fegurðar og tísku? Höfum við á Vesturlöndum nokkuð efni á að gagnrýna umskurð og kynfæramisþyrmingar á stúlkum í Sómalíu og víðar þegar okkar eigin dætur gangast undir svipaðar aðgerðir í nafni hégóma?
Á meðan konur halda áfram að veðsetja sjálfar sig fyrir tísku og ýmindaða fegurð er engin von til að jafnrétti náist með kynjunum. Þá fyrst þegar konur kæra sig kollóttar um tískustrauma og líkamsbábyljur verða kynin jöfn.
Ég skora á íslenskar mæður að innprenta dætrum sínum slíka virðingu fyrir því stórkostlega sköpunarverki sem líkami þeirra er að þeim komi aldrei til hugar að misþyrma honum í eltingaleik við tískubólur samtímans.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.